Sunday, February 15, 2015

Heimalagað basilpestó, ítalskar brauðbollur og vanillucupcakes með súkkulaðismjörkremi

Þessi vika var afskaplega gleðileg eins og síðasta vika.

Það er alltaf gaman að setjast niður í vikulok og gera upp góða viku og skipuleggja þá næstu. 


Það sem stóð upp úr í þessari viku er að ég eignaðist fyrstu hrærivélina mína. Ég hef oft hreinlega sneitt hjá brauðuppskriftum o.fl., þar sem ég hef ekki átt hrærivél og handþeytarinn dugir bara upp að vissu marki. Ég datt sannarlega í lukkupottinn og fékk þessa fínu Kenwood vél á algjörum lúxusprís. 

Annað sem að stóð upp úr er að ég eignaðist fyrsta mortel-ið mitt. Ég hreinlega vissi ekki hvað mortel var fyrr en ég tók það upp úr kassanum, og núna er þetta orðið eitt uppáhalds áhaldið mitt í eldhúsinu. 


Basil pestó

Handfylli af ferskri basiliku
Handfylli af furuhnetum
hvítlaukur
salt og pipar
parmesan ostur
extra virgin ólífuolía


Ég byrjaði á að strá smávegis af grófu salti í mortelið og kramdi saman við basilikuna ásamt örlitlum hvítlauk. Saltið gerir það auðveldara að mauka basilikuna. Að því loknu þá ristaði ég furuhneturnar á pönnu þar til þær urðu gylltar á litinn og ilmuðu dásamlega. 



Ég bætti furuhnetunum í mortelið og maukaði við basilikuna. 




Næst skar ég niður parmesan ost og bærri við, þar til blandan var orðin vel þykk. Þá bætti ég olíunni út í og þynnti blönduna þar til pestóið var orðið tilbúið.




Þetta pestó var virkilega gott, og ég notaði það ofan á heimagert lasagne. 


Ítalskar brauðbollur

Ég las einhvers staðar að hvítlauksbrauð væri ómissandi með lasagne og þar sem ég hafði gert lasagne sem dugði mér út vikuna, þá vildi ég prófa að gera hvítlauksbrauð. Það vildi ekki betur til en að úr urðu fínustu ostarúmstykki, sem minntu ekki neitt á hvítlauksbrauð, en voru afar góð með smjöri og osti. 

1 msk sykur
80 g rifinn ostur
2 ½ tsk hvítlaukssalt
1 tsk basilíka
1 tsk óreganó
3 msk olía
4-5 bollar hveiti
Smávegis vatn
1 pk. þurrger







Eftir að ég fékk hrærivélina var ég ólm að prófa að útbúa girnilegar cupcakes. Ég var virkilega spennt að prófa vélina og hún stóð sig mjög vel. 

Vanillucupcakes með súkkulaðismjörkremi

250 gr. sykur
150 gr. smjör
2 egg
250 gr. hveiti
1 tsk. vanilludropar
1 tsk. vanillusykur
1 tsk. vínsteinsyftiduft
1 dl. rjómi
1 plata suðusúkkulaði 


Ég þeytti sykurinn og smjörið saman fyrst í nokkrar mínútur.


Bætti svo einu eggi við í einu og hrærði varlega saman. Loks setti ég svo rest út í.


Þegar blandan er orðin silkimjúk þá bætti ég við súkkulaðinu sem var fínsaxað.


Setti í muffinsform og inn í ofn á 180 í 20 mínútur.


Ég kældi kökurnar alveg og skreytti svo með góðu smjörkremi.




Þessar kökur eru himneskar á bragðið. Góð vinkona kom svo í morgunkaffi til mín á þessum fína sunnudegi og ég mæli með að allir taki upp morgunkaffi með vinum sínum. Dásamleg byrjun á deginum.

Ég vona að vikan verði ykkur góð.

Ég er með marga rétti sem ég get ekki beðið eftir að prófa að elda í komandi viku.

Hafið það sem allra best! :)





Sunday, February 8, 2015

Héraðsdómslögmaður og rósakökur

Þvílík dásemd sem þessi vika var! 

Ég fékk loksins lögmannsréttindin mín í hendur, borðaði góðan mat og fagnaði alla vikuna og svo í vikulokin tók ég fyrstu skrefin í að læra að skreyta kökur og það áhugamál er sko komið til að vera. 



Ég fór í búðina fyrir vikuna og keypti inn mat fyrir 12 þúsund krónur. Núna er sunnudagur og það er eiginlega allt ennþá til, nóg af kjúklingabringum, nóg af öllu. Ég prófaði mig áfram í svokölluðum kjúklingapottréttum sem er hálfgert rangnefni, þar sem þetta er allt gert á djúpri pönnu. Ég var alveg gífurlega ánægð með útkomuna. Ég nota tvær bringur í einu og það dugir í tvær máltíðir svo það hentar mér mjög vel. 

Því miður varð ég fyrir því óláni að missa símann minn á flísarnar í eldhúsinu og skjárinn eyðilagðist svo því miður gat ég ekki notað myndavélina þegar ég útbjó kjúklingaréttina. Ég mun samt útbúa þá mjög fljótt aftur og lofa að taka þá góðar myndir af ferlinu. 

Ég ætla samt að setja inn þá lélegu mynd sem ég tók á tölvunni, og bið að afsaka lélegu gæðin. 

Uppskrift "kjúklingapottréttur":
2 kjúklingabringur
1 rauð paprika
1 græn paprika
1 askja sveppir
1 haus brokkolí
1/4 stilkur af blaðlauk
 1 msk paprikukrydd
2 msk karrý
 dass rjómi 
1 msk sýrður rjómi
1 grænmetisteningur
dass salt og pipar


Ég skar bringurnar í bita og steikti þar til þær voru orðnar fallega hvítar. Skar niður allt grænmetið og setti á pönnuna og leyfði því að léttsteikjast. Síðan bætti ég við karríi og paprikukryddi og blandaði vel saman. Þegar grænmetið var orðið steikt ágætlega þá hellti ég rjóma yfir, setti sýrða rjómann út í og smakkaði til. Ég bætti við salti, pipar og í lokin bætti ég við 1 grænmetisteningi. Voilá. Þess má til gamans geta að það má leika sér endalaust með þennan rétt, prófa sig áfram í kryddum og grænmeti og þróa sinn eigin fullkomna pottrétt. Svo tekur þetta alls ekki langan tíma. Ég bar þetta fram með hvítlauksbrauði, setti alveg punktinn yfir i-ið.

Annars var ég svo spennt fyrir kökuskreytingarnámskeiðinu sem ég fór í í kvöld, þannig að á föstudagskvöldið prófaði ég að útbúa mína eigin köku og prófaði mig áfram í rósagerðinni. Hér að neðan má sjá fyrstu rósakökuna mína. Hún var líka mjööög bragðgóð, mun bragðbetri en þessi bleika hér að ofan, enda er ég mikill aðdáandi súkkulaðismjörkrems. Ég hlakka til að prófa að bæta út í kremið rótsterku kaffi, ég held að það geti orðið upphafið á einhverju stórkostlegu.

Það er eitt sem aldrei verður tekið af mér, og það er metnaður. Ef mér finnst eitthvað áhugavert þá fær það alla mína óskiptu athygli. Á þessum sólarhring sem ég sá að ég gat gert fallegar kökur, þá keypti ég 3 kökumót, 3 matarliti, nokkrar tegundir af kremstútum, festingum, fullt af sprautupokum, kökuspaða, kökudisk með hjálm, tvær kökusleifar, sykurperlur og eflaust eitthvað fleira sem ég er búin að gleyma. Sagan á það til að endurtaka sig, eins og með gítarinn og bókina og gítarpokann, golfsettið, veiðistöngina o.s.frv. En þetta er samt aðeins öðruvísi, því að maður getur glatt aðra með þessu áhugamáli. Svo vil ég meina að þetta sé bara virk slökun, eins og eldamennskan. 



En að næstu viku, matarplanið mitt er einhvern veginn svona (með staðalfrávikum 1-3 dagar):

Mánudagur:
Nauthóll með saumaklúbbnum mínum, Markúsi Aroni. En ég get svosem alveg sagt ykkur hvað ég ætla að fá mér, en það er kjúklingasalat. Nauthóll er með eitt besta kjúklingasalat bæjarins.

Þriðjudagur:
Grænmetislasagne "lúxus" (sem þýðir eiginlega bara mikill fetaostur)


Miðvikudagur:
Kjúklingaréttur "a la Lára" (sem þýðir bara að það er ómögulegt að segja til um það)



Fimmtudagur:
Mig langar að prófa að gera hakk og spaghetti - mastera það. Mér finnst að allir eigi að kunna að búa til skothelt hakk og spaghetti. Mögulega bæti ég kjötbollum við, en ég elska þær.

Föstudagur:
Ég er að fara á tónleika þetta kvöld - auk þess þá er þetta föstudagurinn þrettándi. Ég hugsa að ég eldi bara ekki neitt. 

Helgin:
Þarna kemur einhver snilld, ég er bara of þreytt núna til að hugsa um næstu helgi- ég fer bara að hugsa um hvað ég ætla sko að sofa mikið þá. 




Sunday, February 1, 2015

Vertu velkominn febrúar!

Góðan dag,

Mikið er ég ánægð að febrúarmánuður er genginn í garð! Það er alltaf ákveðinn áfangi sem næst að kveðja janúar. Janúar er svo langur og oft erfiður fyrir fólk, sérstaklega á Íslandi þegar sólin skín lítið og kalt er úti. Reyndar tók ég janúar og nýja árinu svo fagnandi að ég hef notið mín einstaklega vel í janúar.

Ég afrekaði líka mikið í janúar. Ég sparaði alveg svakalega mikið í matarinnkaupum, með því að versla 1 x í viku og elda fjölbreyttan mat. Ég kláraði tvær bækur, en er að lesa sennilega 4 bækur núna. Ég kom mér aftur af stað í líkamsrækt, og er farin að stunda það að fara í gufubað eftir æfingu þar sem ég sit og hreinsa hugann og slaka á. Mér finnst það alveg ómissandi partur af því að fara í ræktina núna. Svo kannski síðast en ekki síst þá lauk ég prófmálinu mínu í héraði sl. föstudag og er núna að bíða eftir löggildingarskírteininu mínu í pósti sem staðfestir að ég sé orðin héraðsdómslögmaður. Það er mikill og stór áfangi og ég er ótrúlega ánægð með sjálfa mig.

Markmiðin fyrir febrúar eru þau að ég ætla að vakna fyrr (ég náði ekki að mastera það í janúar en ég afsaka það með því að ég bý á lítilli eyju í N-Atlantshafi og hér skín ekki sól í janúar og að skikka fólk að vakna eldsnemma ætti að vera brot á mannréttindum). En mér líður alltaf rosalega vel á morgnanna, ef svo ólíklega vill til að ég er vakandi og það er algjör synd að eiga svona erfitt með að vakna. Önnur markmið í febrúar eru að hugsa vel um sjálfa mig, lesa meira og vinna að markmiðum mínum fyrir framtíðina.

Matarplanið mitt fyrir vikuna er ekki alveg ákveðið en í kvöld eldaði ég frábæran kjúklingarétt í karrý. Ég var alveg ótrúlega ánægð með útkomuna og þetta tók ekki langan tíma.




Ég skar tvær kjúklingabringur í bita, steikti upp úr olíu þar til að bitarnir voru orðnir alveg ljósir. Því næst bætti ég við tveimur niðurskornum paprikum, blaðlauk og sveppum og steikti með. Ég kryddaði þessa blöndu með 3 matskeiðum af karrýi frá pottagöldrum, smá garlic og einni matskeið af paprikukryddi. Ég leyfði þessu að steikjast saman í nokkrar mínútur. Að lokum bætti ég við ca. 4 dl. af rjóma og tveimur matskeiðum af sýrðum rjóma og leyfði þessu að malla. Ég smakkaði þetta svo til, bætti við einum grænmetisteningi og saltaði örlítið.

Þetta bragðaðist ótrúlega vel og ég bar þetta fram (fyrir sjálfa mig) með hvítlauksbrauði og ísköldu kókglasi. Ég ætla að reyna að hætta þessari kókdrykkju, en þar sem ég átti kókdós þá stóðst ég ekki mátið. Þessi réttur væri líka fullkomin með hvítvínsglasi.

Ég keypti 8 kjúklingabringur áðan og hef því enga ástæðu til að prófa mig ekki áfram í fínum kjúklingaréttum.

Í vikunni ætla ég að prófa mig áfram í kjúklingaréttum. Það er alveg frábært ráð að útbúa kjúklingarétt með tveimur bringum og taka svo rest með í vinnuna daginn eftir. Ég ætla einnig að útbúa böku með brokkolí, sveppum, fetaosti, papriku og graslauk. Það verður spennandi að sjá hvernig það kemur út. Svo geri ég sennilega pizzuböku eða jafnvel lasagne. Ég ætla samt að reyna að vera fjölbreytt milli vikna.

Annars ætla ég að enda þetta á góðu lífsmottói. Þetta ætla ég að tileinka mér aftur. Ég hafði það mottó þegar ég var "yngri", að "við værum bara einu sinni ung" og það var mín afsökun til að prófa allt og gera allt. Þegar ég lít til baka finnst mér þetta bara frábært og ég er stolt af sjálfri mér og öllu því sem ég gerði og sá og hvar ég stend í dag. Ég vil samt ekki gleyma því að ég er ennþá ung og með allt lífið framundan. Ísland (og eflaust allir staðir) getur þrengt manni sýn, að maður eigi að fara í skóla og mennta sig, fara í tiltekna menntun vegna atvinnumöguleika (í stað áhugasviðs) og svo framhaldsmenntun, vinna sig frá botninum og upp á topp, kaupa hús, gifta sig, stofna fjölskyldu o.s.frv. Ef fólk er ekki á þessari braut, líður því oft illa og finnst það "ekki vera að standa sig". Lífið er bara einu sinni, við eigum að vera með fólki sem lætur okkur líða vel og sem við elskum (ef við erum svo heppin að hafa það í lífinu), svo eigum við að gera það sem við viljum! Skoða heiminn, prófa nýja hluti, nýja staði, kynnast fullt af fólki, lifa lífinu!




-Lára