Sunday, February 1, 2015

Vertu velkominn febrúar!

Góðan dag,

Mikið er ég ánægð að febrúarmánuður er genginn í garð! Það er alltaf ákveðinn áfangi sem næst að kveðja janúar. Janúar er svo langur og oft erfiður fyrir fólk, sérstaklega á Íslandi þegar sólin skín lítið og kalt er úti. Reyndar tók ég janúar og nýja árinu svo fagnandi að ég hef notið mín einstaklega vel í janúar.

Ég afrekaði líka mikið í janúar. Ég sparaði alveg svakalega mikið í matarinnkaupum, með því að versla 1 x í viku og elda fjölbreyttan mat. Ég kláraði tvær bækur, en er að lesa sennilega 4 bækur núna. Ég kom mér aftur af stað í líkamsrækt, og er farin að stunda það að fara í gufubað eftir æfingu þar sem ég sit og hreinsa hugann og slaka á. Mér finnst það alveg ómissandi partur af því að fara í ræktina núna. Svo kannski síðast en ekki síst þá lauk ég prófmálinu mínu í héraði sl. föstudag og er núna að bíða eftir löggildingarskírteininu mínu í pósti sem staðfestir að ég sé orðin héraðsdómslögmaður. Það er mikill og stór áfangi og ég er ótrúlega ánægð með sjálfa mig.

Markmiðin fyrir febrúar eru þau að ég ætla að vakna fyrr (ég náði ekki að mastera það í janúar en ég afsaka það með því að ég bý á lítilli eyju í N-Atlantshafi og hér skín ekki sól í janúar og að skikka fólk að vakna eldsnemma ætti að vera brot á mannréttindum). En mér líður alltaf rosalega vel á morgnanna, ef svo ólíklega vill til að ég er vakandi og það er algjör synd að eiga svona erfitt með að vakna. Önnur markmið í febrúar eru að hugsa vel um sjálfa mig, lesa meira og vinna að markmiðum mínum fyrir framtíðina.

Matarplanið mitt fyrir vikuna er ekki alveg ákveðið en í kvöld eldaði ég frábæran kjúklingarétt í karrý. Ég var alveg ótrúlega ánægð með útkomuna og þetta tók ekki langan tíma.




Ég skar tvær kjúklingabringur í bita, steikti upp úr olíu þar til að bitarnir voru orðnir alveg ljósir. Því næst bætti ég við tveimur niðurskornum paprikum, blaðlauk og sveppum og steikti með. Ég kryddaði þessa blöndu með 3 matskeiðum af karrýi frá pottagöldrum, smá garlic og einni matskeið af paprikukryddi. Ég leyfði þessu að steikjast saman í nokkrar mínútur. Að lokum bætti ég við ca. 4 dl. af rjóma og tveimur matskeiðum af sýrðum rjóma og leyfði þessu að malla. Ég smakkaði þetta svo til, bætti við einum grænmetisteningi og saltaði örlítið.

Þetta bragðaðist ótrúlega vel og ég bar þetta fram (fyrir sjálfa mig) með hvítlauksbrauði og ísköldu kókglasi. Ég ætla að reyna að hætta þessari kókdrykkju, en þar sem ég átti kókdós þá stóðst ég ekki mátið. Þessi réttur væri líka fullkomin með hvítvínsglasi.

Ég keypti 8 kjúklingabringur áðan og hef því enga ástæðu til að prófa mig ekki áfram í fínum kjúklingaréttum.

Í vikunni ætla ég að prófa mig áfram í kjúklingaréttum. Það er alveg frábært ráð að útbúa kjúklingarétt með tveimur bringum og taka svo rest með í vinnuna daginn eftir. Ég ætla einnig að útbúa böku með brokkolí, sveppum, fetaosti, papriku og graslauk. Það verður spennandi að sjá hvernig það kemur út. Svo geri ég sennilega pizzuböku eða jafnvel lasagne. Ég ætla samt að reyna að vera fjölbreytt milli vikna.

Annars ætla ég að enda þetta á góðu lífsmottói. Þetta ætla ég að tileinka mér aftur. Ég hafði það mottó þegar ég var "yngri", að "við værum bara einu sinni ung" og það var mín afsökun til að prófa allt og gera allt. Þegar ég lít til baka finnst mér þetta bara frábært og ég er stolt af sjálfri mér og öllu því sem ég gerði og sá og hvar ég stend í dag. Ég vil samt ekki gleyma því að ég er ennþá ung og með allt lífið framundan. Ísland (og eflaust allir staðir) getur þrengt manni sýn, að maður eigi að fara í skóla og mennta sig, fara í tiltekna menntun vegna atvinnumöguleika (í stað áhugasviðs) og svo framhaldsmenntun, vinna sig frá botninum og upp á topp, kaupa hús, gifta sig, stofna fjölskyldu o.s.frv. Ef fólk er ekki á þessari braut, líður því oft illa og finnst það "ekki vera að standa sig". Lífið er bara einu sinni, við eigum að vera með fólki sem lætur okkur líða vel og sem við elskum (ef við erum svo heppin að hafa það í lífinu), svo eigum við að gera það sem við viljum! Skoða heiminn, prófa nýja hluti, nýja staði, kynnast fullt af fólki, lifa lífinu!




-Lára





1 comment:

  1. Mikið er ég stoltur af þér elsku Lára mín, þú ert að standa þig svo ótrúlega vel. Ég hef alltaf sagt það að þú ert heimsins besta fyrirmynd :) Þessi kjúklingaréttur lítur alveg ótrúlega vel út og matarplanið er ekki síðra! Algjört lostæti sem meistarakokkurinn þú galdrar fram.
    Líst rosalega vel á lífsmóttin, ég vildi að ég hefði kynnst þér fyrr og verið ævintýragjarnari í æskunni. Ég mun alltaf sjá eftir því að hafa ekki farið í skiptinám eins og þú. En ég er þakklátur þér fyrir að rífa mig úr comfort zone-inu og opna fyrir mér dyrnar að ævintýraheiminum sem við höfum skoðað saman :)

    ReplyDelete