Þvílík dásemd sem þessi vika var!
Ég fékk loksins lögmannsréttindin mín í hendur, borðaði góðan mat og fagnaði alla vikuna og svo í vikulokin tók ég fyrstu skrefin í að læra að skreyta kökur og það áhugamál er sko komið til að vera.
Ég fór í búðina fyrir vikuna og keypti inn mat fyrir 12 þúsund krónur. Núna er sunnudagur og það er eiginlega allt ennþá til, nóg af kjúklingabringum, nóg af öllu. Ég prófaði mig áfram í svokölluðum kjúklingapottréttum sem er hálfgert rangnefni, þar sem þetta er allt gert á djúpri pönnu. Ég var alveg gífurlega ánægð með útkomuna. Ég nota tvær bringur í einu og það dugir í tvær máltíðir svo það hentar mér mjög vel.
Því miður varð ég fyrir því óláni að missa símann minn á flísarnar í eldhúsinu og skjárinn eyðilagðist svo því miður gat ég ekki notað myndavélina þegar ég útbjó kjúklingaréttina. Ég mun samt útbúa þá mjög fljótt aftur og lofa að taka þá góðar myndir af ferlinu.
Ég ætla samt að setja inn þá lélegu mynd sem ég tók á tölvunni, og bið að afsaka lélegu gæðin.
Uppskrift "kjúklingapottréttur":
2 kjúklingabringur
1 rauð paprika
1 græn paprika
1 askja sveppir
1 haus brokkolí
1/4 stilkur af blaðlauk
1 msk paprikukrydd
2 msk karrý
dass rjómi
1 msk sýrður rjómi
1 grænmetisteningur
dass salt og pipar
Ég skar bringurnar í bita og steikti þar til þær voru orðnar fallega hvítar. Skar niður allt grænmetið og setti á pönnuna og leyfði því að léttsteikjast. Síðan bætti ég við karríi og paprikukryddi og blandaði vel saman. Þegar grænmetið var orðið steikt ágætlega þá hellti ég rjóma yfir, setti sýrða rjómann út í og smakkaði til. Ég bætti við salti, pipar og í lokin bætti ég við 1 grænmetisteningi. Voilá. Þess má til gamans geta að það má leika sér endalaust með þennan rétt, prófa sig áfram í kryddum og grænmeti og þróa sinn eigin fullkomna pottrétt. Svo tekur þetta alls ekki langan tíma. Ég bar þetta fram með hvítlauksbrauði, setti alveg punktinn yfir i-ið.
Annars var ég svo spennt fyrir kökuskreytingarnámskeiðinu sem ég fór í í kvöld, þannig að á föstudagskvöldið prófaði ég að útbúa mína eigin köku og prófaði mig áfram í rósagerðinni. Hér að neðan má sjá fyrstu rósakökuna mína. Hún var líka mjööög bragðgóð, mun bragðbetri en þessi bleika hér að ofan, enda er ég mikill aðdáandi súkkulaðismjörkrems. Ég hlakka til að prófa að bæta út í kremið rótsterku kaffi, ég held að það geti orðið upphafið á einhverju stórkostlegu.
Það er eitt sem aldrei verður tekið af mér, og það er metnaður. Ef mér finnst eitthvað áhugavert þá fær það alla mína óskiptu athygli. Á þessum sólarhring sem ég sá að ég gat gert fallegar kökur, þá keypti ég 3 kökumót, 3 matarliti, nokkrar tegundir af kremstútum, festingum, fullt af sprautupokum, kökuspaða, kökudisk með hjálm, tvær kökusleifar, sykurperlur og eflaust eitthvað fleira sem ég er búin að gleyma. Sagan á það til að endurtaka sig, eins og með gítarinn og bókina og gítarpokann, golfsettið, veiðistöngina o.s.frv. En þetta er samt aðeins öðruvísi, því að maður getur glatt aðra með þessu áhugamáli. Svo vil ég meina að þetta sé bara virk slökun, eins og eldamennskan.
Það er eitt sem aldrei verður tekið af mér, og það er metnaður. Ef mér finnst eitthvað áhugavert þá fær það alla mína óskiptu athygli. Á þessum sólarhring sem ég sá að ég gat gert fallegar kökur, þá keypti ég 3 kökumót, 3 matarliti, nokkrar tegundir af kremstútum, festingum, fullt af sprautupokum, kökuspaða, kökudisk með hjálm, tvær kökusleifar, sykurperlur og eflaust eitthvað fleira sem ég er búin að gleyma. Sagan á það til að endurtaka sig, eins og með gítarinn og bókina og gítarpokann, golfsettið, veiðistöngina o.s.frv. En þetta er samt aðeins öðruvísi, því að maður getur glatt aðra með þessu áhugamáli. Svo vil ég meina að þetta sé bara virk slökun, eins og eldamennskan.
En að næstu viku, matarplanið mitt er einhvern veginn svona (með staðalfrávikum 1-3 dagar):
Mánudagur:
Nauthóll með saumaklúbbnum mínum, Markúsi Aroni. En ég get svosem alveg sagt ykkur hvað ég ætla að fá mér, en það er kjúklingasalat. Nauthóll er með eitt besta kjúklingasalat bæjarins.
Þriðjudagur:
Grænmetislasagne "lúxus" (sem þýðir eiginlega bara mikill fetaostur)
Miðvikudagur:
Kjúklingaréttur "a la Lára" (sem þýðir bara að það er ómögulegt að segja til um það)
Fimmtudagur:
Mig langar að prófa að gera hakk og spaghetti - mastera það. Mér finnst að allir eigi að kunna að búa til skothelt hakk og spaghetti. Mögulega bæti ég kjötbollum við, en ég elska þær.
Föstudagur:
Ég er að fara á tónleika þetta kvöld - auk þess þá er þetta föstudagurinn þrettándi. Ég hugsa að ég eldi bara ekki neitt.
Helgin:
Þarna kemur einhver snilld, ég er bara of þreytt núna til að hugsa um næstu helgi- ég fer bara að hugsa um hvað ég ætla sko að sofa mikið þá.
Vávává! Það er ótrúlegt hvað þú ert flink að gera þessar kökur elsku Lára! Þær eru jafn glæsilegar og þær eru girnilegar, maður veit ekki hvort maður á að stilla þeim upp sem skrauti eða háma þær í sig um leið og maður kemst í færi :) Og ekki eru réttirnir þínir síðri, rosalega lítur þetta allt vel út! Það er svo sannarlega rétt hjá þér að þú hefur ótakmarkaðan metnað og drif, en ég vil nú ekki meina að hin hobbýin þín hafi ekki glatt þá í kringum þig líka, en ég styð þessi hobbý alveg heilshugar (heilmaga) :). Ég get ekki beðið eftir því að sjá fleiri kræsingar hjá þér og hvernig þú getur mögulega þróast í þessum stórglæsilegu kökum. Og já, eitt enn, TIL HAMINGJU MEÐ LÖGMANNSRÉTTINDIN!!! :D
ReplyDeleteÉg elska þig af öllu mínu hjarta, elsku besta Lára mín! :*
ReplyDelete