Ég veit fátt betra en að fá mér gott rúnstykki á sunnudögum (og reyndar alla aðra daga líka), og drekka gott kaffi eða kókómjólk með.
Ég fer oft í viku í mitt dásamlega hverfisbakarí og kaupi múslírúnstykki. Þau eru alveg svakalega góð og ekki sakar að þau eru í hollari kantinum.
Ég ákvað að athuga hvort ég gæti ekki sjálf bakað rúnstykki sem svipuðu til þeirra sem fást í bakaríinu. Úr urðu alveg dásamlega ljúffeng rúnstykki sem hægt er að útfæra á ýmsan hátt, eftir vilja hvers og eins.
Rúnstykki með rúsínum:
2,5 - 3 dl volgt vatn
2 tsk þurrger
1 msk. agave sýróp (má líka nota hunang)
4 dl brauðhveiti
2-3 dl heilhveiti
2 dl af fræjum/rúsínum (ég notaði í þetta sinn fimmkornafræblöndu, chia fræ og rúsínur)
Byrjað er á því að leysa upp þurrgerið í um það bil 3-5 mínútur í vatninu. Því næst er agave sýrópi bætt út í, og loks hveitinu og fræblöndunni og rúsínum. Deig hnoðað og látið hefast í skál í um það bil 30 mínútur. Næst eru mótaðar bollur úr deiginu og þær látnar standa í 20 mínútur. Loks eru bollurnar penslaðar með pískuðu eggi og þau fræ sem þið kjósið er stráð ofan á. Bollurnar eru bakaðar í ofninum í 30 mínútur á 200 C.
Gott er að bera þær fram með smjöri, osti og eggjum eða agúrku, ásamt nýmöluðu kaffi. Það er líka hægt að útbúa þær kvöldið áður og baka svo morguninn eftir.
Vona að þið njótið dagsins í þessu fallega jólaveðri.
Vá elsku Lára mín! Þessi rúmstykki líta ekkert smá vel út hjá þér, og myndin svo flott líka! :D Þú verður að spara amk eitt þeirra fyrir mig þegar ég kem heim í allar dásamlegur kræsingarnar þínar! :D
ReplyDelete