Saturday, January 24, 2015

Jazz og bylur

Góðan daginn,

Þessi vika fór vel í matarplaninu. Ég er ekki frá því að ég sé að spara mér tugi þúsunda með þessu plani fram í tímann og þessari fyrirmyndareldamennsku. Ég fer 1 x í viku í búðina og kaupi fyrir ca. 8 þúsund krónur í matinn fyrir alla vikuna. Það gera 32.000 kr. í mat á mánuði. Þarna inni er samt ekki daglegur kaffibolli sem gera ca. auka 20.000 kr. á mánuði. En þetta er mun lægri fjárhæð en 100.000-150.000 kr. sem fóru í mat hér áður fyrr þegar það var bara take-out í öll mál. 

Hvað varðar sl. viku þá hef ég komist að einu gagnlegu fyrir framtíðina: Ekki þykjast ætla að elda kjúklingasúpu og taka hana með þér í nesti alla vikuna. Kjúklingasúpa lítur út eins og æla þegar hún er komin í glerkrukku. Maður missir bara alla matarlyst að ferðast með ælulitaða súpu með kjúklingabitum í glerkrukku á milli lappanna á leiðinni í vinnuna. Betra að eiga hana bara lengur og fá sér rúmstykki í hádeginu. 

En það eru góðar fréttir, eftir viku verð ég orðin frú lögmaður. Prófmálið mitt verður næsta fimmtudag (vettvangsferð) og föstudag og svo er planið eftir það að fara á Nauthól og skála í hvítt og fá mér kjúklingasalat. 




Annars er ég að meta þessa síðustu helgi í janúar. Hér er sannkallað janúarveður, bylur og fólk beðið að halda sig innandyra. Ég er að sjálfsögðu með kertaljós, bók við hönd og með jazz í gangi sem er komið til að vera. Ég er alveg búin að kolfalla fyrir jazztónlist. Ég ætla að draga pabba með mér oftar á árinu á jazzkvöld á kaffihúsum bæjarins. Það gladdi hann alveg rosalega mikið síðast þegar við kíktum á live jazz. Þessi mynd fangar stemninguna heima hjá mér ágætlega núna. 



Annars er planið mitt á morgun að njóta sunnudagsins, drekka gott kaffi, hitta fólk og læra smá stærðfræði. 

Einn annar lögfræðibrandari í ljósi síðustu viku minnar sem lítill saklaus lögfræðingur. Vildi að þetta væri bara svona easy með að ákveða fatnaðinn.


Ég set inn matarplan vikunnar mjög fljótlega :)


Monday, January 19, 2015

Vikumarkmið

Jæja, þá er komið að vikumarkmiðinu. Núna er mánudagur runninn upp og ég hlakka til að sjá hvernig þetta matarplan spilast út. Ég er sannkallaður hrútur og á það til að útbúa heilu plönin og undirbúa allt saman og fá svo leið og byrja að snúa mér að öðru. Talandi um þessa hrútshegðun, ætli þetta sé ekki ástæða þess að ég er með fjórar bækur á náttborðinu mínu og les alltaf smá og byrja svo á næstu. Ég hef smá áhyggjur af þessum matarplönum af því að ég er komin með það á heilann að fara að breyta svefnherberginu í Mekka Norðursins og það væri nú dæmigert ef ég gleymdi matarplönunum yfir því að fara að mála og snúa öllu við. En þetta er nýtt og gott ár, og maður veit aldrei hvernig hlutirnir þróast.



Annars er það fyrsta bókagagnrýni ársins, en ég kláraði að lesa bókina skyndibitar fyrir sálina eftir Barböru Berger. Ég veit ekki alveg með hana. Ekki sammála öllu í henni, en nokkur góð ráð í henni. Ég er bara ekki fylgjandi þeirri hugsun að ef þú hugsir neikvætt þá laðirðu að þér það neikvæða og þess vegna er betra að vera jákvæður og laða þannig að þér jákvæða hluti. Mér finnst þetta svo auðveld skýring á flóknum hlutum. Eins og ein sniðug sem ég þekki sagði mér, þá virkar þessi hugsun eins og huggun fyrir fólk að bíða eftir að eitthvað frábært gerist með það að vopni að vera jákvætt. Auðvitað er gagnlegt að vera jákvæður, en fólk þarf líka að búa um rúmið sitt eins og það kýs að hafa það, þ.e.a.s að jákvæðni kemur þér ekkert ein og sér, þú þarft að koma þér á áfangastað sjálfur og jákvætt hugarfar getur kannski auðveldað þér leiðina. Orð og draumar manneskju segja manni hvernig manneskja viðkomandi vill vera, en það eru gjörðir sem sýna manni hvernig manneskja er. Að þessu sögðu þá langar mig að efast um mottóið mitt að það gerist allt af ástæðu. Mér finnst þetta vera örlítið í sama dúr og þetta að ofan með að vera jákvæður. Málið er að "shit really does happen" og oft eru ástæðurnar óskiljanlegar, nema kannski að maður segði á dánarbeðinu "já ég þroskaðist rosalega á þessari lífsreynslu". En hvað veit maður, mér finnst þetta kjánalegt mottó.  Svona er maður síbreytilegur. Fólk á ekki að nota þetta sem afsökun fyrir því að framkvæma ekki hluti og elta draumana sína eða horfast í augu við raunveruleikann. Eins og frægur maður sagði: "You are not a product of your circumstances. You are a product of your decisions."



En nóg um heimspekina, hér er matarplanið mitt:

Mánudagur
Nesti: grænmetislasagne 

Kvöldmatur: afgangur af grænmetislasagne ásamt hvítlauksbrauði (í mars ætla ég að byrja að prófa víntegundir með öllum þessum mat)

Þriðjudagur
Nesti: Ég ætla að leyfa mér að kaupa nesti þennan dag vegna þess að ég verð sennilega búin með lasagne-ð.

Kvöldmatur: Kjúklingasúpa með hvítlauksbrauði 

Miðvikudagur
Nesti: kjúklingasúpa (ég keypti mjög hentuga krukku til að taka súpu með mér í vinnuna)

kvöldmatur: Matur hjá vinkonu minni

Fimmtudagur
Nesti: Kjúklingasúpa 

kvöldmatur: Kjúklingasúpa með hvítlauksbrauði

Föstudagur
Nesti: Föstudagskaffi í vinnunni

Kvöldmatur: Einhver dásamleg baka, ég er að brainstorma á milljón þessa dagana. Ég mun setja inn uppskrift. (Ég keypti bökuform með lausum botni svo þetta ætti að verða leikur einn)

Laugardagur: Ef vel tekst til, þá verður afgangur af bökunni. 

Sunnudagur: Þarna ætla ég aðra ferð í matarbúðina og hver veit hvað kemur úr þeirri ferð!


Annars ætla ég að enda þetta á smá visku frá Bob Marley, sem sannarlega vissi hvað hann söng.


Saturday, January 17, 2015

Lúxus grænmetislasagne

Jæja, í dag hófst matarplanið mitt, fyrst og fremst í sparnaðarskyni en líka í því skyni að elda fjölbreyttari mat og verða betri í matargerð. Eftir að hafa notið þess að sofa út þennan fallega laugardag, fékk ég mér góðan kaffibolla, lærði stærðfræði sem kom mér mjög skemmtilega á óvart og ákvað ég svo að slá til og hefja sparnaðinn og skellti mér í Bónus og keypti inn fyrir næstu viku. Ég troðfyllti tvo innkaupapoka og þetta var mun ódýrara en ég hélt.

Ég ákvað að búa til lúxus grænmetislasagne sem kemur til með að endast í mjög margar máltíðir og er virkilega hollt líka. 


Ég byrjaði á því að steikja saman sveppi, papriku og brokkolí. Kryddaði með salti, parmesan og garlic ásamt töfrakryddi sem vinkona mín gaf mér í jólagjöf. Næst bætti ég við niðursoðnum tómötum, tómatpúrru og loks setti ég hvítlauks- og ostatómatblöndu út í. Í lokin ákvað ég að nota klípu af paprikusmurosti. 



Þessa blöndu setti ég ofan á lasagne plöturnar sem komnar voru í eldfast mót. 



Það verður seint af mér tekið að vera mikil ostakona, og ákvað ég að spara sko ekki fetaostinn ofan á blönduna. Ég setti síðan kotasælu á milli laga og að lokum stráði ég rifnum osti yfir og setti jafnframt smá parmesan. 


Þegar hér var komið við sögu skellti ég þessu í ofninn. Ég ákvað að hafa þetta í 30 mínútur með álpappír yfir, og svo tók ég álpappírinn af og lét þetta vera í 15 mínútur í viðbót. Þá verður osturinn ekki alveg brúnn heldur meira gylltur. 


Ég var að smakka fyrsta bitann og vá, þetta er besta lasagne sem ég hef á ævi minni smakkað!!! Lyktin er alveg guðdómleg og það er frábært að borða góðan mat sem er líka hollur. 

Ég enda þetta á smá ást, enda er ástin dásamleg.





Kem með vikulistann fljótt. 

Kv.,
Lára

Wednesday, January 14, 2015

Markmið mánaðarins

Góðan dag og gleðilegt ár!

Núna eru liðnar tvær vikur af árinu 2015 sem ég finn á mér að verði gott ár. Ég ætla að reyna að prófa marga nýja hluti á þessu ári, ég ætla að ögra sjálfri mér og reyna að láta ekki tækifærin úr greipum renna. 

Í ljósi þess að ég er afar mikið sófadýr og veit fátt betra en að verja föstudagskvöldum í náttfötum að horfa á Útsvar og öllum öðrum stundum að gera eitthvað afslappandi, þá verður þetta skemmtileg tilbreyting fyrir mig að dratthalast til að verja tíma mínum betur og prófa nýja hluti. Ég hefði kannski ekki átt að nefna bloggið kósýheit?

Hvað lífstílsbreytingar varðar þá langar mig að lesa fleiri bækur (þá meina ég annað en sérfræðibækur á sviði lögfræði), elda meira og fara í leiðinni betur með peninga, stunda meiri útivist og vera duglegri að rækta frábæru vini mína. 

Ég ætla að setja mér markmið þetta ár, þ.e. ársmarkmið, 6 mánaða markmið, mánaðarmarkmið og vikuleg matarmarkmið. Ég ætla ekki að deila stóru markmiðum mínum hérna opinberlega en mun setja inn mánaðarmarkmiðin mín sem og tilraunir mínar til að halda úti matarplani. 

Ef við byrjum á þessum jákvæðasta janúarmánuði lífs míns, þá eru markmiðin mín fyrir næstu tvær vikur: 

1) klára prófmálið mitt fyrir héraðsdómi og öðlast málflutningsréttindi
2) prófa mig aðeins áfram í fiskréttum
3) vakna fyrr á morgnanna
4) fara aftur í árlega heimsókn í líkamsræktina, nema núna skal hún að lágmarki vera vikuleg
5) kynna mér hugleiðslu

Þessi markmið fyrir janúar eru eins leiðinleg eins og janúar er oft þekktur fyrir, en þannig er mál með vexti að ég hef þróað með mér alveg einstaka jákvæðni og líður rosalega vel í þessum janúarmánuði, en venjulega kvarta ég sáran yfir janúar og öllu sem honum fylgir. Að einhverjum skuli detta það í hug að prófa sig áfram í að sjóða fisk í janúar hlýtur að vera eitthvað galinn, en ég er bara til í þetta. 

Ég ætla að byrja á matarplaninu mínu á sunnudaginn, þegar ný vika hefst og mun ég koma með matarmarkmið vikunnar fyrir þann tíma. Tilgangur plansins er að hjálpa mér að spara svo ég geti farið að öðlast frelsi úr viðjum bankans, læra að elda meira í leiðinni auk þess sem ég held að matargerð sé ekkert nema virk slökun, svo lengi sem að maður er ekki að elda of flókinn mat. 

Ég er að spá í að hafa fróðleiksmola í lokin. Ég hef lesið mikið undanfarið um lífið og heilsuna og mér er mjög umhugað um að rækta líka sálina. Áramótaheitið mitt var að tileinka mér það að banka í sjálfa mig reglulega og vera þakklát fyrir alla litlu hlutina sem eru í raun svo stórir. Svo gríðarlega stórir að maður áttar sig yfirleitt ekki á því fyrr en eitthvað bjátar á. Það er mjög mikilvægt að lifa í núinu og njóta tímans, sem líður mjög hratt.