Núna eru liðnar tvær vikur af árinu 2015 sem ég finn á mér að verði gott ár. Ég ætla að reyna að prófa marga nýja hluti á þessu ári, ég ætla að ögra sjálfri mér og reyna að láta ekki tækifærin úr greipum renna.
Í ljósi þess að ég er afar mikið sófadýr og veit fátt betra en að verja föstudagskvöldum í náttfötum að horfa á Útsvar og öllum öðrum stundum að gera eitthvað afslappandi, þá verður þetta skemmtileg tilbreyting fyrir mig að dratthalast til að verja tíma mínum betur og prófa nýja hluti. Ég hefði kannski ekki átt að nefna bloggið kósýheit?
Hvað lífstílsbreytingar varðar þá langar mig að lesa fleiri bækur (þá meina ég annað en sérfræðibækur á sviði lögfræði), elda meira og fara í leiðinni betur með peninga, stunda meiri útivist og vera duglegri að rækta frábæru vini mína.
Ég ætla að setja mér markmið þetta ár, þ.e. ársmarkmið, 6 mánaða markmið, mánaðarmarkmið og vikuleg matarmarkmið. Ég ætla ekki að deila stóru markmiðum mínum hérna opinberlega en mun setja inn mánaðarmarkmiðin mín sem og tilraunir mínar til að halda úti matarplani.
Ef við byrjum á þessum jákvæðasta janúarmánuði lífs míns, þá eru markmiðin mín fyrir næstu tvær vikur:
1) klára prófmálið mitt fyrir héraðsdómi og öðlast málflutningsréttindi
2) prófa mig aðeins áfram í fiskréttum
3) vakna fyrr á morgnanna
4) fara aftur í árlega heimsókn í líkamsræktina, nema núna skal hún að lágmarki vera vikuleg
5) kynna mér hugleiðslu
Þessi markmið fyrir janúar eru eins leiðinleg eins og janúar er oft þekktur fyrir, en þannig er mál með vexti að ég hef þróað með mér alveg einstaka jákvæðni og líður rosalega vel í þessum janúarmánuði, en venjulega kvarta ég sáran yfir janúar og öllu sem honum fylgir. Að einhverjum skuli detta það í hug að prófa sig áfram í að sjóða fisk í janúar hlýtur að vera eitthvað galinn, en ég er bara til í þetta.
Ég ætla að byrja á matarplaninu mínu á sunnudaginn, þegar ný vika hefst og mun ég koma með matarmarkmið vikunnar fyrir þann tíma. Tilgangur plansins er að hjálpa mér að spara svo ég geti farið að öðlast frelsi úr viðjum bankans, læra að elda meira í leiðinni auk þess sem ég held að matargerð sé ekkert nema virk slökun, svo lengi sem að maður er ekki að elda of flókinn mat.
Ég er að spá í að hafa fróðleiksmola í lokin. Ég hef lesið mikið undanfarið um lífið og heilsuna og mér er mjög umhugað um að rækta líka sálina. Áramótaheitið mitt var að tileinka mér það að banka í sjálfa mig reglulega og vera þakklát fyrir alla litlu hlutina sem eru í raun svo stórir. Svo gríðarlega stórir að maður áttar sig yfirleitt ekki á því fyrr en eitthvað bjátar á. Það er mjög mikilvægt að lifa í núinu og njóta tímans, sem líður mjög hratt.
Glæsilegt hjá þér elsku Lára mín! Ég held að nafnið sé alls ekki galið, enda fátt betra en að njóta litlu kósý stundanna :-) Auk þess ert þú heimsmeistari í að gera hlutina kósý líkt og myndirnar af heimilinu, matnum og verðskulduðu notalegu afslöppunum munu sýna! Ég hlakka til að sjá matarplanið og dásamlegar myndir á þessu fyrirmyndar bloggi! :-)
ReplyDelete