Monday, January 19, 2015

Vikumarkmið

Jæja, þá er komið að vikumarkmiðinu. Núna er mánudagur runninn upp og ég hlakka til að sjá hvernig þetta matarplan spilast út. Ég er sannkallaður hrútur og á það til að útbúa heilu plönin og undirbúa allt saman og fá svo leið og byrja að snúa mér að öðru. Talandi um þessa hrútshegðun, ætli þetta sé ekki ástæða þess að ég er með fjórar bækur á náttborðinu mínu og les alltaf smá og byrja svo á næstu. Ég hef smá áhyggjur af þessum matarplönum af því að ég er komin með það á heilann að fara að breyta svefnherberginu í Mekka Norðursins og það væri nú dæmigert ef ég gleymdi matarplönunum yfir því að fara að mála og snúa öllu við. En þetta er nýtt og gott ár, og maður veit aldrei hvernig hlutirnir þróast.



Annars er það fyrsta bókagagnrýni ársins, en ég kláraði að lesa bókina skyndibitar fyrir sálina eftir Barböru Berger. Ég veit ekki alveg með hana. Ekki sammála öllu í henni, en nokkur góð ráð í henni. Ég er bara ekki fylgjandi þeirri hugsun að ef þú hugsir neikvætt þá laðirðu að þér það neikvæða og þess vegna er betra að vera jákvæður og laða þannig að þér jákvæða hluti. Mér finnst þetta svo auðveld skýring á flóknum hlutum. Eins og ein sniðug sem ég þekki sagði mér, þá virkar þessi hugsun eins og huggun fyrir fólk að bíða eftir að eitthvað frábært gerist með það að vopni að vera jákvætt. Auðvitað er gagnlegt að vera jákvæður, en fólk þarf líka að búa um rúmið sitt eins og það kýs að hafa það, þ.e.a.s að jákvæðni kemur þér ekkert ein og sér, þú þarft að koma þér á áfangastað sjálfur og jákvætt hugarfar getur kannski auðveldað þér leiðina. Orð og draumar manneskju segja manni hvernig manneskja viðkomandi vill vera, en það eru gjörðir sem sýna manni hvernig manneskja er. Að þessu sögðu þá langar mig að efast um mottóið mitt að það gerist allt af ástæðu. Mér finnst þetta vera örlítið í sama dúr og þetta að ofan með að vera jákvæður. Málið er að "shit really does happen" og oft eru ástæðurnar óskiljanlegar, nema kannski að maður segði á dánarbeðinu "já ég þroskaðist rosalega á þessari lífsreynslu". En hvað veit maður, mér finnst þetta kjánalegt mottó.  Svona er maður síbreytilegur. Fólk á ekki að nota þetta sem afsökun fyrir því að framkvæma ekki hluti og elta draumana sína eða horfast í augu við raunveruleikann. Eins og frægur maður sagði: "You are not a product of your circumstances. You are a product of your decisions."



En nóg um heimspekina, hér er matarplanið mitt:

Mánudagur
Nesti: grænmetislasagne 

Kvöldmatur: afgangur af grænmetislasagne ásamt hvítlauksbrauði (í mars ætla ég að byrja að prófa víntegundir með öllum þessum mat)

Þriðjudagur
Nesti: Ég ætla að leyfa mér að kaupa nesti þennan dag vegna þess að ég verð sennilega búin með lasagne-ð.

Kvöldmatur: Kjúklingasúpa með hvítlauksbrauði 

Miðvikudagur
Nesti: kjúklingasúpa (ég keypti mjög hentuga krukku til að taka súpu með mér í vinnuna)

kvöldmatur: Matur hjá vinkonu minni

Fimmtudagur
Nesti: Kjúklingasúpa 

kvöldmatur: Kjúklingasúpa með hvítlauksbrauði

Föstudagur
Nesti: Föstudagskaffi í vinnunni

Kvöldmatur: Einhver dásamleg baka, ég er að brainstorma á milljón þessa dagana. Ég mun setja inn uppskrift. (Ég keypti bökuform með lausum botni svo þetta ætti að verða leikur einn)

Laugardagur: Ef vel tekst til, þá verður afgangur af bökunni. 

Sunnudagur: Þarna ætla ég aðra ferð í matarbúðina og hver veit hvað kemur úr þeirri ferð!


Annars ætla ég að enda þetta á smá visku frá Bob Marley, sem sannarlega vissi hvað hann söng.


1 comment:

  1. Þú ert svo sannarlega prinsessa kósýheitana, ég bíð spenntur eftir því að sjá hvað þú gerir við svefnherbergið :) Vikuplanið lítur glæsilega út, þú ætlar þér greinilega að standa við stóru orðin með þetta blogg, glæsilegar myndir og maturinn skipulagður niður í smáatriði! Ég get ekki beðið eftir því að sjá framhaldið og næsta rétt :)

    ReplyDelete