Saturday, June 20, 2015

Kjötbollur með Mozzarella og sólþurrkuðum tómötum




Mig langar að deila með ykkur heimsins bestu kjötbollum, sem ég prófaði um daginn. Hugmynd að uppskrift fann ég á íslenskri bloggsíðu (www.ljufmeti.com) og mæli ég einstaklega vel með þessari uppskrift.

1 pakki nautahakk (ca. 500 g.)
Handfylli af ferskri basilíku
1 poki af ferskum mozzarella
1 krukka af sólþurrkuðum tómötum
1 egg
1 dl rjómi
smjör
salt og pipar

Sósa:
steikingarsoð
kjötkraftur
2,5 dl rjómi 
150 g. rjómaostur




Byrjið að skera mozzarella ostinn niður í smáa bita. Því næst takið þið basilíkuna og sólþurrkuðu tómatana og saxið smátt niður. Setjið saman í skál.










Næst bætið þið hakkinu, rjómanum og eggi út í og hrærið saman varlega með sleif. Saltið og piprið.



Mótið svo bollur með höndunum og steikið á pönnu við miðlungshita þar til þær eru eldaðar í gegn. Mínar voru frekar þykkar og tók þetta nokkra þolinmæðisvinnu.

Næst voru bollurnar teknar af pönnunni en rjóma var bætt út í steikingarsoðið, kjötkrafti einnig ásamt slatta af rjómaosti. Sósan var svo smökkuð til þar til hún hreinlega var orðin fullkomin. Bollunum var þá bætt út í sósuna og leyft að malla í smá stund.

Tilvalið meðlæti:
Kartöflur og gott salat, að ógleymdu rauðvíninu.

Njótið vel 






Sunday, March 8, 2015

Ljúffeng rúnstykki með rúsínum



Ég veit fátt betra en að fá mér gott rúnstykki á sunnudögum (og reyndar alla aðra daga líka), og drekka gott kaffi eða kókómjólk með.

Ég fer oft í viku í mitt dásamlega hverfisbakarí og kaupi múslírúnstykki. Þau eru alveg svakalega góð og ekki sakar að þau eru í hollari kantinum.

Ég ákvað að athuga hvort ég gæti ekki sjálf bakað rúnstykki sem svipuðu til þeirra sem fást í bakaríinu. Úr urðu alveg dásamlega ljúffeng rúnstykki sem hægt er að útfæra á ýmsan hátt, eftir vilja hvers og eins.

Rúnstykki með rúsínum:

2,5 - 3 dl volgt vatn
2 tsk þurrger 
1 msk. agave sýróp (má líka nota hunang)
4 dl brauðhveiti 
2-3 dl heilhveiti
2 dl af fræjum/rúsínum (ég notaði í þetta sinn fimmkornafræblöndu, chia fræ og rúsínur)


Byrjað er á því að leysa upp þurrgerið í um það bil 3-5 mínútur í vatninu. Því næst er agave sýrópi bætt út í, og loks hveitinu og fræblöndunni og rúsínum. Deig hnoðað og látið hefast í skál í um það bil 30 mínútur. Næst eru mótaðar bollur úr deiginu og þær látnar standa í 20 mínútur. Loks eru bollurnar penslaðar með pískuðu eggi og þau fræ sem þið kjósið er stráð ofan á. Bollurnar eru bakaðar í ofninum í 30 mínútur á 200 C. 

Gott er að bera þær fram með smjöri, osti og eggjum eða agúrku, ásamt nýmöluðu kaffi. Það er líka hægt að útbúa þær kvöldið áður og baka svo morguninn eftir. 

Vona að þið njótið dagsins í þessu fallega jólaveðri.  



Sunday, February 15, 2015

Heimalagað basilpestó, ítalskar brauðbollur og vanillucupcakes með súkkulaðismjörkremi

Þessi vika var afskaplega gleðileg eins og síðasta vika.

Það er alltaf gaman að setjast niður í vikulok og gera upp góða viku og skipuleggja þá næstu. 


Það sem stóð upp úr í þessari viku er að ég eignaðist fyrstu hrærivélina mína. Ég hef oft hreinlega sneitt hjá brauðuppskriftum o.fl., þar sem ég hef ekki átt hrærivél og handþeytarinn dugir bara upp að vissu marki. Ég datt sannarlega í lukkupottinn og fékk þessa fínu Kenwood vél á algjörum lúxusprís. 

Annað sem að stóð upp úr er að ég eignaðist fyrsta mortel-ið mitt. Ég hreinlega vissi ekki hvað mortel var fyrr en ég tók það upp úr kassanum, og núna er þetta orðið eitt uppáhalds áhaldið mitt í eldhúsinu. 


Basil pestó

Handfylli af ferskri basiliku
Handfylli af furuhnetum
hvítlaukur
salt og pipar
parmesan ostur
extra virgin ólífuolía


Ég byrjaði á að strá smávegis af grófu salti í mortelið og kramdi saman við basilikuna ásamt örlitlum hvítlauk. Saltið gerir það auðveldara að mauka basilikuna. Að því loknu þá ristaði ég furuhneturnar á pönnu þar til þær urðu gylltar á litinn og ilmuðu dásamlega. 



Ég bætti furuhnetunum í mortelið og maukaði við basilikuna. 




Næst skar ég niður parmesan ost og bærri við, þar til blandan var orðin vel þykk. Þá bætti ég olíunni út í og þynnti blönduna þar til pestóið var orðið tilbúið.




Þetta pestó var virkilega gott, og ég notaði það ofan á heimagert lasagne. 


Ítalskar brauðbollur

Ég las einhvers staðar að hvítlauksbrauð væri ómissandi með lasagne og þar sem ég hafði gert lasagne sem dugði mér út vikuna, þá vildi ég prófa að gera hvítlauksbrauð. Það vildi ekki betur til en að úr urðu fínustu ostarúmstykki, sem minntu ekki neitt á hvítlauksbrauð, en voru afar góð með smjöri og osti. 

1 msk sykur
80 g rifinn ostur
2 ½ tsk hvítlaukssalt
1 tsk basilíka
1 tsk óreganó
3 msk olía
4-5 bollar hveiti
Smávegis vatn
1 pk. þurrger







Eftir að ég fékk hrærivélina var ég ólm að prófa að útbúa girnilegar cupcakes. Ég var virkilega spennt að prófa vélina og hún stóð sig mjög vel. 

Vanillucupcakes með súkkulaðismjörkremi

250 gr. sykur
150 gr. smjör
2 egg
250 gr. hveiti
1 tsk. vanilludropar
1 tsk. vanillusykur
1 tsk. vínsteinsyftiduft
1 dl. rjómi
1 plata suðusúkkulaði 


Ég þeytti sykurinn og smjörið saman fyrst í nokkrar mínútur.


Bætti svo einu eggi við í einu og hrærði varlega saman. Loks setti ég svo rest út í.


Þegar blandan er orðin silkimjúk þá bætti ég við súkkulaðinu sem var fínsaxað.


Setti í muffinsform og inn í ofn á 180 í 20 mínútur.


Ég kældi kökurnar alveg og skreytti svo með góðu smjörkremi.




Þessar kökur eru himneskar á bragðið. Góð vinkona kom svo í morgunkaffi til mín á þessum fína sunnudegi og ég mæli með að allir taki upp morgunkaffi með vinum sínum. Dásamleg byrjun á deginum.

Ég vona að vikan verði ykkur góð.

Ég er með marga rétti sem ég get ekki beðið eftir að prófa að elda í komandi viku.

Hafið það sem allra best! :)





Sunday, February 8, 2015

Héraðsdómslögmaður og rósakökur

Þvílík dásemd sem þessi vika var! 

Ég fékk loksins lögmannsréttindin mín í hendur, borðaði góðan mat og fagnaði alla vikuna og svo í vikulokin tók ég fyrstu skrefin í að læra að skreyta kökur og það áhugamál er sko komið til að vera. 



Ég fór í búðina fyrir vikuna og keypti inn mat fyrir 12 þúsund krónur. Núna er sunnudagur og það er eiginlega allt ennþá til, nóg af kjúklingabringum, nóg af öllu. Ég prófaði mig áfram í svokölluðum kjúklingapottréttum sem er hálfgert rangnefni, þar sem þetta er allt gert á djúpri pönnu. Ég var alveg gífurlega ánægð með útkomuna. Ég nota tvær bringur í einu og það dugir í tvær máltíðir svo það hentar mér mjög vel. 

Því miður varð ég fyrir því óláni að missa símann minn á flísarnar í eldhúsinu og skjárinn eyðilagðist svo því miður gat ég ekki notað myndavélina þegar ég útbjó kjúklingaréttina. Ég mun samt útbúa þá mjög fljótt aftur og lofa að taka þá góðar myndir af ferlinu. 

Ég ætla samt að setja inn þá lélegu mynd sem ég tók á tölvunni, og bið að afsaka lélegu gæðin. 

Uppskrift "kjúklingapottréttur":
2 kjúklingabringur
1 rauð paprika
1 græn paprika
1 askja sveppir
1 haus brokkolí
1/4 stilkur af blaðlauk
 1 msk paprikukrydd
2 msk karrý
 dass rjómi 
1 msk sýrður rjómi
1 grænmetisteningur
dass salt og pipar


Ég skar bringurnar í bita og steikti þar til þær voru orðnar fallega hvítar. Skar niður allt grænmetið og setti á pönnuna og leyfði því að léttsteikjast. Síðan bætti ég við karríi og paprikukryddi og blandaði vel saman. Þegar grænmetið var orðið steikt ágætlega þá hellti ég rjóma yfir, setti sýrða rjómann út í og smakkaði til. Ég bætti við salti, pipar og í lokin bætti ég við 1 grænmetisteningi. Voilá. Þess má til gamans geta að það má leika sér endalaust með þennan rétt, prófa sig áfram í kryddum og grænmeti og þróa sinn eigin fullkomna pottrétt. Svo tekur þetta alls ekki langan tíma. Ég bar þetta fram með hvítlauksbrauði, setti alveg punktinn yfir i-ið.

Annars var ég svo spennt fyrir kökuskreytingarnámskeiðinu sem ég fór í í kvöld, þannig að á föstudagskvöldið prófaði ég að útbúa mína eigin köku og prófaði mig áfram í rósagerðinni. Hér að neðan má sjá fyrstu rósakökuna mína. Hún var líka mjööög bragðgóð, mun bragðbetri en þessi bleika hér að ofan, enda er ég mikill aðdáandi súkkulaðismjörkrems. Ég hlakka til að prófa að bæta út í kremið rótsterku kaffi, ég held að það geti orðið upphafið á einhverju stórkostlegu.

Það er eitt sem aldrei verður tekið af mér, og það er metnaður. Ef mér finnst eitthvað áhugavert þá fær það alla mína óskiptu athygli. Á þessum sólarhring sem ég sá að ég gat gert fallegar kökur, þá keypti ég 3 kökumót, 3 matarliti, nokkrar tegundir af kremstútum, festingum, fullt af sprautupokum, kökuspaða, kökudisk með hjálm, tvær kökusleifar, sykurperlur og eflaust eitthvað fleira sem ég er búin að gleyma. Sagan á það til að endurtaka sig, eins og með gítarinn og bókina og gítarpokann, golfsettið, veiðistöngina o.s.frv. En þetta er samt aðeins öðruvísi, því að maður getur glatt aðra með þessu áhugamáli. Svo vil ég meina að þetta sé bara virk slökun, eins og eldamennskan. 



En að næstu viku, matarplanið mitt er einhvern veginn svona (með staðalfrávikum 1-3 dagar):

Mánudagur:
Nauthóll með saumaklúbbnum mínum, Markúsi Aroni. En ég get svosem alveg sagt ykkur hvað ég ætla að fá mér, en það er kjúklingasalat. Nauthóll er með eitt besta kjúklingasalat bæjarins.

Þriðjudagur:
Grænmetislasagne "lúxus" (sem þýðir eiginlega bara mikill fetaostur)


Miðvikudagur:
Kjúklingaréttur "a la Lára" (sem þýðir bara að það er ómögulegt að segja til um það)



Fimmtudagur:
Mig langar að prófa að gera hakk og spaghetti - mastera það. Mér finnst að allir eigi að kunna að búa til skothelt hakk og spaghetti. Mögulega bæti ég kjötbollum við, en ég elska þær.

Föstudagur:
Ég er að fara á tónleika þetta kvöld - auk þess þá er þetta föstudagurinn þrettándi. Ég hugsa að ég eldi bara ekki neitt. 

Helgin:
Þarna kemur einhver snilld, ég er bara of þreytt núna til að hugsa um næstu helgi- ég fer bara að hugsa um hvað ég ætla sko að sofa mikið þá. 




Sunday, February 1, 2015

Vertu velkominn febrúar!

Góðan dag,

Mikið er ég ánægð að febrúarmánuður er genginn í garð! Það er alltaf ákveðinn áfangi sem næst að kveðja janúar. Janúar er svo langur og oft erfiður fyrir fólk, sérstaklega á Íslandi þegar sólin skín lítið og kalt er úti. Reyndar tók ég janúar og nýja árinu svo fagnandi að ég hef notið mín einstaklega vel í janúar.

Ég afrekaði líka mikið í janúar. Ég sparaði alveg svakalega mikið í matarinnkaupum, með því að versla 1 x í viku og elda fjölbreyttan mat. Ég kláraði tvær bækur, en er að lesa sennilega 4 bækur núna. Ég kom mér aftur af stað í líkamsrækt, og er farin að stunda það að fara í gufubað eftir æfingu þar sem ég sit og hreinsa hugann og slaka á. Mér finnst það alveg ómissandi partur af því að fara í ræktina núna. Svo kannski síðast en ekki síst þá lauk ég prófmálinu mínu í héraði sl. föstudag og er núna að bíða eftir löggildingarskírteininu mínu í pósti sem staðfestir að ég sé orðin héraðsdómslögmaður. Það er mikill og stór áfangi og ég er ótrúlega ánægð með sjálfa mig.

Markmiðin fyrir febrúar eru þau að ég ætla að vakna fyrr (ég náði ekki að mastera það í janúar en ég afsaka það með því að ég bý á lítilli eyju í N-Atlantshafi og hér skín ekki sól í janúar og að skikka fólk að vakna eldsnemma ætti að vera brot á mannréttindum). En mér líður alltaf rosalega vel á morgnanna, ef svo ólíklega vill til að ég er vakandi og það er algjör synd að eiga svona erfitt með að vakna. Önnur markmið í febrúar eru að hugsa vel um sjálfa mig, lesa meira og vinna að markmiðum mínum fyrir framtíðina.

Matarplanið mitt fyrir vikuna er ekki alveg ákveðið en í kvöld eldaði ég frábæran kjúklingarétt í karrý. Ég var alveg ótrúlega ánægð með útkomuna og þetta tók ekki langan tíma.




Ég skar tvær kjúklingabringur í bita, steikti upp úr olíu þar til að bitarnir voru orðnir alveg ljósir. Því næst bætti ég við tveimur niðurskornum paprikum, blaðlauk og sveppum og steikti með. Ég kryddaði þessa blöndu með 3 matskeiðum af karrýi frá pottagöldrum, smá garlic og einni matskeið af paprikukryddi. Ég leyfði þessu að steikjast saman í nokkrar mínútur. Að lokum bætti ég við ca. 4 dl. af rjóma og tveimur matskeiðum af sýrðum rjóma og leyfði þessu að malla. Ég smakkaði þetta svo til, bætti við einum grænmetisteningi og saltaði örlítið.

Þetta bragðaðist ótrúlega vel og ég bar þetta fram (fyrir sjálfa mig) með hvítlauksbrauði og ísköldu kókglasi. Ég ætla að reyna að hætta þessari kókdrykkju, en þar sem ég átti kókdós þá stóðst ég ekki mátið. Þessi réttur væri líka fullkomin með hvítvínsglasi.

Ég keypti 8 kjúklingabringur áðan og hef því enga ástæðu til að prófa mig ekki áfram í fínum kjúklingaréttum.

Í vikunni ætla ég að prófa mig áfram í kjúklingaréttum. Það er alveg frábært ráð að útbúa kjúklingarétt með tveimur bringum og taka svo rest með í vinnuna daginn eftir. Ég ætla einnig að útbúa böku með brokkolí, sveppum, fetaosti, papriku og graslauk. Það verður spennandi að sjá hvernig það kemur út. Svo geri ég sennilega pizzuböku eða jafnvel lasagne. Ég ætla samt að reyna að vera fjölbreytt milli vikna.

Annars ætla ég að enda þetta á góðu lífsmottói. Þetta ætla ég að tileinka mér aftur. Ég hafði það mottó þegar ég var "yngri", að "við værum bara einu sinni ung" og það var mín afsökun til að prófa allt og gera allt. Þegar ég lít til baka finnst mér þetta bara frábært og ég er stolt af sjálfri mér og öllu því sem ég gerði og sá og hvar ég stend í dag. Ég vil samt ekki gleyma því að ég er ennþá ung og með allt lífið framundan. Ísland (og eflaust allir staðir) getur þrengt manni sýn, að maður eigi að fara í skóla og mennta sig, fara í tiltekna menntun vegna atvinnumöguleika (í stað áhugasviðs) og svo framhaldsmenntun, vinna sig frá botninum og upp á topp, kaupa hús, gifta sig, stofna fjölskyldu o.s.frv. Ef fólk er ekki á þessari braut, líður því oft illa og finnst það "ekki vera að standa sig". Lífið er bara einu sinni, við eigum að vera með fólki sem lætur okkur líða vel og sem við elskum (ef við erum svo heppin að hafa það í lífinu), svo eigum við að gera það sem við viljum! Skoða heiminn, prófa nýja hluti, nýja staði, kynnast fullt af fólki, lifa lífinu!




-Lára





Saturday, January 24, 2015

Jazz og bylur

Góðan daginn,

Þessi vika fór vel í matarplaninu. Ég er ekki frá því að ég sé að spara mér tugi þúsunda með þessu plani fram í tímann og þessari fyrirmyndareldamennsku. Ég fer 1 x í viku í búðina og kaupi fyrir ca. 8 þúsund krónur í matinn fyrir alla vikuna. Það gera 32.000 kr. í mat á mánuði. Þarna inni er samt ekki daglegur kaffibolli sem gera ca. auka 20.000 kr. á mánuði. En þetta er mun lægri fjárhæð en 100.000-150.000 kr. sem fóru í mat hér áður fyrr þegar það var bara take-out í öll mál. 

Hvað varðar sl. viku þá hef ég komist að einu gagnlegu fyrir framtíðina: Ekki þykjast ætla að elda kjúklingasúpu og taka hana með þér í nesti alla vikuna. Kjúklingasúpa lítur út eins og æla þegar hún er komin í glerkrukku. Maður missir bara alla matarlyst að ferðast með ælulitaða súpu með kjúklingabitum í glerkrukku á milli lappanna á leiðinni í vinnuna. Betra að eiga hana bara lengur og fá sér rúmstykki í hádeginu. 

En það eru góðar fréttir, eftir viku verð ég orðin frú lögmaður. Prófmálið mitt verður næsta fimmtudag (vettvangsferð) og föstudag og svo er planið eftir það að fara á Nauthól og skála í hvítt og fá mér kjúklingasalat. 




Annars er ég að meta þessa síðustu helgi í janúar. Hér er sannkallað janúarveður, bylur og fólk beðið að halda sig innandyra. Ég er að sjálfsögðu með kertaljós, bók við hönd og með jazz í gangi sem er komið til að vera. Ég er alveg búin að kolfalla fyrir jazztónlist. Ég ætla að draga pabba með mér oftar á árinu á jazzkvöld á kaffihúsum bæjarins. Það gladdi hann alveg rosalega mikið síðast þegar við kíktum á live jazz. Þessi mynd fangar stemninguna heima hjá mér ágætlega núna. 



Annars er planið mitt á morgun að njóta sunnudagsins, drekka gott kaffi, hitta fólk og læra smá stærðfræði. 

Einn annar lögfræðibrandari í ljósi síðustu viku minnar sem lítill saklaus lögfræðingur. Vildi að þetta væri bara svona easy með að ákveða fatnaðinn.


Ég set inn matarplan vikunnar mjög fljótlega :)


Monday, January 19, 2015

Vikumarkmið

Jæja, þá er komið að vikumarkmiðinu. Núna er mánudagur runninn upp og ég hlakka til að sjá hvernig þetta matarplan spilast út. Ég er sannkallaður hrútur og á það til að útbúa heilu plönin og undirbúa allt saman og fá svo leið og byrja að snúa mér að öðru. Talandi um þessa hrútshegðun, ætli þetta sé ekki ástæða þess að ég er með fjórar bækur á náttborðinu mínu og les alltaf smá og byrja svo á næstu. Ég hef smá áhyggjur af þessum matarplönum af því að ég er komin með það á heilann að fara að breyta svefnherberginu í Mekka Norðursins og það væri nú dæmigert ef ég gleymdi matarplönunum yfir því að fara að mála og snúa öllu við. En þetta er nýtt og gott ár, og maður veit aldrei hvernig hlutirnir þróast.



Annars er það fyrsta bókagagnrýni ársins, en ég kláraði að lesa bókina skyndibitar fyrir sálina eftir Barböru Berger. Ég veit ekki alveg með hana. Ekki sammála öllu í henni, en nokkur góð ráð í henni. Ég er bara ekki fylgjandi þeirri hugsun að ef þú hugsir neikvætt þá laðirðu að þér það neikvæða og þess vegna er betra að vera jákvæður og laða þannig að þér jákvæða hluti. Mér finnst þetta svo auðveld skýring á flóknum hlutum. Eins og ein sniðug sem ég þekki sagði mér, þá virkar þessi hugsun eins og huggun fyrir fólk að bíða eftir að eitthvað frábært gerist með það að vopni að vera jákvætt. Auðvitað er gagnlegt að vera jákvæður, en fólk þarf líka að búa um rúmið sitt eins og það kýs að hafa það, þ.e.a.s að jákvæðni kemur þér ekkert ein og sér, þú þarft að koma þér á áfangastað sjálfur og jákvætt hugarfar getur kannski auðveldað þér leiðina. Orð og draumar manneskju segja manni hvernig manneskja viðkomandi vill vera, en það eru gjörðir sem sýna manni hvernig manneskja er. Að þessu sögðu þá langar mig að efast um mottóið mitt að það gerist allt af ástæðu. Mér finnst þetta vera örlítið í sama dúr og þetta að ofan með að vera jákvæður. Málið er að "shit really does happen" og oft eru ástæðurnar óskiljanlegar, nema kannski að maður segði á dánarbeðinu "já ég þroskaðist rosalega á þessari lífsreynslu". En hvað veit maður, mér finnst þetta kjánalegt mottó.  Svona er maður síbreytilegur. Fólk á ekki að nota þetta sem afsökun fyrir því að framkvæma ekki hluti og elta draumana sína eða horfast í augu við raunveruleikann. Eins og frægur maður sagði: "You are not a product of your circumstances. You are a product of your decisions."



En nóg um heimspekina, hér er matarplanið mitt:

Mánudagur
Nesti: grænmetislasagne 

Kvöldmatur: afgangur af grænmetislasagne ásamt hvítlauksbrauði (í mars ætla ég að byrja að prófa víntegundir með öllum þessum mat)

Þriðjudagur
Nesti: Ég ætla að leyfa mér að kaupa nesti þennan dag vegna þess að ég verð sennilega búin með lasagne-ð.

Kvöldmatur: Kjúklingasúpa með hvítlauksbrauði 

Miðvikudagur
Nesti: kjúklingasúpa (ég keypti mjög hentuga krukku til að taka súpu með mér í vinnuna)

kvöldmatur: Matur hjá vinkonu minni

Fimmtudagur
Nesti: Kjúklingasúpa 

kvöldmatur: Kjúklingasúpa með hvítlauksbrauði

Föstudagur
Nesti: Föstudagskaffi í vinnunni

Kvöldmatur: Einhver dásamleg baka, ég er að brainstorma á milljón þessa dagana. Ég mun setja inn uppskrift. (Ég keypti bökuform með lausum botni svo þetta ætti að verða leikur einn)

Laugardagur: Ef vel tekst til, þá verður afgangur af bökunni. 

Sunnudagur: Þarna ætla ég aðra ferð í matarbúðina og hver veit hvað kemur úr þeirri ferð!


Annars ætla ég að enda þetta á smá visku frá Bob Marley, sem sannarlega vissi hvað hann söng.


Saturday, January 17, 2015

Lúxus grænmetislasagne

Jæja, í dag hófst matarplanið mitt, fyrst og fremst í sparnaðarskyni en líka í því skyni að elda fjölbreyttari mat og verða betri í matargerð. Eftir að hafa notið þess að sofa út þennan fallega laugardag, fékk ég mér góðan kaffibolla, lærði stærðfræði sem kom mér mjög skemmtilega á óvart og ákvað ég svo að slá til og hefja sparnaðinn og skellti mér í Bónus og keypti inn fyrir næstu viku. Ég troðfyllti tvo innkaupapoka og þetta var mun ódýrara en ég hélt.

Ég ákvað að búa til lúxus grænmetislasagne sem kemur til með að endast í mjög margar máltíðir og er virkilega hollt líka. 


Ég byrjaði á því að steikja saman sveppi, papriku og brokkolí. Kryddaði með salti, parmesan og garlic ásamt töfrakryddi sem vinkona mín gaf mér í jólagjöf. Næst bætti ég við niðursoðnum tómötum, tómatpúrru og loks setti ég hvítlauks- og ostatómatblöndu út í. Í lokin ákvað ég að nota klípu af paprikusmurosti. 



Þessa blöndu setti ég ofan á lasagne plöturnar sem komnar voru í eldfast mót. 



Það verður seint af mér tekið að vera mikil ostakona, og ákvað ég að spara sko ekki fetaostinn ofan á blönduna. Ég setti síðan kotasælu á milli laga og að lokum stráði ég rifnum osti yfir og setti jafnframt smá parmesan. 


Þegar hér var komið við sögu skellti ég þessu í ofninn. Ég ákvað að hafa þetta í 30 mínútur með álpappír yfir, og svo tók ég álpappírinn af og lét þetta vera í 15 mínútur í viðbót. Þá verður osturinn ekki alveg brúnn heldur meira gylltur. 


Ég var að smakka fyrsta bitann og vá, þetta er besta lasagne sem ég hef á ævi minni smakkað!!! Lyktin er alveg guðdómleg og það er frábært að borða góðan mat sem er líka hollur. 

Ég enda þetta á smá ást, enda er ástin dásamleg.





Kem með vikulistann fljótt. 

Kv.,
Lára

Wednesday, January 14, 2015

Markmið mánaðarins

Góðan dag og gleðilegt ár!

Núna eru liðnar tvær vikur af árinu 2015 sem ég finn á mér að verði gott ár. Ég ætla að reyna að prófa marga nýja hluti á þessu ári, ég ætla að ögra sjálfri mér og reyna að láta ekki tækifærin úr greipum renna. 

Í ljósi þess að ég er afar mikið sófadýr og veit fátt betra en að verja föstudagskvöldum í náttfötum að horfa á Útsvar og öllum öðrum stundum að gera eitthvað afslappandi, þá verður þetta skemmtileg tilbreyting fyrir mig að dratthalast til að verja tíma mínum betur og prófa nýja hluti. Ég hefði kannski ekki átt að nefna bloggið kósýheit?

Hvað lífstílsbreytingar varðar þá langar mig að lesa fleiri bækur (þá meina ég annað en sérfræðibækur á sviði lögfræði), elda meira og fara í leiðinni betur með peninga, stunda meiri útivist og vera duglegri að rækta frábæru vini mína. 

Ég ætla að setja mér markmið þetta ár, þ.e. ársmarkmið, 6 mánaða markmið, mánaðarmarkmið og vikuleg matarmarkmið. Ég ætla ekki að deila stóru markmiðum mínum hérna opinberlega en mun setja inn mánaðarmarkmiðin mín sem og tilraunir mínar til að halda úti matarplani. 

Ef við byrjum á þessum jákvæðasta janúarmánuði lífs míns, þá eru markmiðin mín fyrir næstu tvær vikur: 

1) klára prófmálið mitt fyrir héraðsdómi og öðlast málflutningsréttindi
2) prófa mig aðeins áfram í fiskréttum
3) vakna fyrr á morgnanna
4) fara aftur í árlega heimsókn í líkamsræktina, nema núna skal hún að lágmarki vera vikuleg
5) kynna mér hugleiðslu

Þessi markmið fyrir janúar eru eins leiðinleg eins og janúar er oft þekktur fyrir, en þannig er mál með vexti að ég hef þróað með mér alveg einstaka jákvæðni og líður rosalega vel í þessum janúarmánuði, en venjulega kvarta ég sáran yfir janúar og öllu sem honum fylgir. Að einhverjum skuli detta það í hug að prófa sig áfram í að sjóða fisk í janúar hlýtur að vera eitthvað galinn, en ég er bara til í þetta. 

Ég ætla að byrja á matarplaninu mínu á sunnudaginn, þegar ný vika hefst og mun ég koma með matarmarkmið vikunnar fyrir þann tíma. Tilgangur plansins er að hjálpa mér að spara svo ég geti farið að öðlast frelsi úr viðjum bankans, læra að elda meira í leiðinni auk þess sem ég held að matargerð sé ekkert nema virk slökun, svo lengi sem að maður er ekki að elda of flókinn mat. 

Ég er að spá í að hafa fróðleiksmola í lokin. Ég hef lesið mikið undanfarið um lífið og heilsuna og mér er mjög umhugað um að rækta líka sálina. Áramótaheitið mitt var að tileinka mér það að banka í sjálfa mig reglulega og vera þakklát fyrir alla litlu hlutina sem eru í raun svo stórir. Svo gríðarlega stórir að maður áttar sig yfirleitt ekki á því fyrr en eitthvað bjátar á. Það er mjög mikilvægt að lifa í núinu og njóta tímans, sem líður mjög hratt.